Icelandair Group heldur upp á sjötíu ára afmæli félagsins nú í hádeginu í nýju stórhýsi Flugsafnsins á Akureyrarflugvelli. Saga félagsins hófst með stofnun Flugfélags Akureyrar árið 1937.
Það er nú í hádeginu sem afmælisgestir safnast saman í nýju húsi Flugsafnsins á Akureyrarflugvelli til að fagna þessum áfanga. Afmælisgjöfina gefur afmælisbarnið að þessu sinni en Icelandair Group gefur Flugsafninu merka flugvél og sjö milljón króna rekstrarstyrk í tilefni tímamótanna. Meðal gesta sem halda tölur í hófinu eru Kristján Möller samgönguráðherra og Jón Karl Ólafsson forstjóri félagsins. Rætur Icelandair Group liggja á Akureyri en í dag eru 70 ár frá því að hlutafélagið Flugfélag Akureyrar var stofnað, meðal annars af Agnari Kofoed-Hansen. Þegar félagið flutti til Reykjavíkur þremur árum síðar var nafninu breytt í Flugfélag Íslands. Það starfaði samhliða Loftleiðum í áratugi eða þar til félögin sameinuðust árið 1973 í Flugleiðum sem nú heitir Icelandair Group sem hefur um 3000 starfsmenn nú í sumar.
Afmælisgjöfin er Stinson Reliant flugvél sem var keypt til landsins fyrir nokkrum árum - sömu gerðar og fyrsta flugvél Loftleiða sem var tekin í notkun hér lýðveldissumarið og var staðsett á Miklavatni í Fljótum en var nýtt fyrir ríkissjóð til að leita að síldartorfum. Raunar varð brátt um þá vél því hún skemmdist strax um haustið og varð þá óflughæf.