Gengi hlutabréfa hækkaði um þrjú prósent við lokun hlutabréfamarkaðarins í Sjanghæ í Kína í dag eftir að stjórnvöld vísuðu því á bug að þau ætli að hækka fjármagnstekjurskatt í því augnamiði að kæla kínverskan hlutabréfamarkað.
Þetta er önnur stóra hækkunin á kínverskum hlutabréfamarkaði í vikunni.
Gengi CSI-300 vísitölunnar í kauphöllinni féll í tvígang í síðustu viku eftir að stjórnvöld þrefölduðu stimpilgjöld auk þess sem orðrómur fór á kreik að hækkunar væri að vænta á fjármagnstekjuskatti til að kæla kínverskan hlutabréfamarkað, sem hefur verið á hraðri siglingu síðastliðna 18 mánuði. Fjárfestar brugðust við fréttunum með því að losa um mikið magn hlutabréfa og færa fjármagn til.
Gengi vísitölunnar hefur þrefaldast síðan í byrjun síðasta árs, þar af tvöfaldast frá áramótum. Helsta ástæðan fyrir því hefur verið mikil eftirspurn eftir hlutabréfum á innanlandsmarkaði.
Varað hefur verið við bóla sé á myndast á markaðnum sem geti sprungið fyrirvaralaust með alvarlegum afleiðingum fyrir helstu fjármálamarkaði.