Viðskipti innlent

Eik banki skráður í Kauphöllina

Kauphöll Íslands.
Kauphöll Íslands.

Danski bankinn Eik Banki verður tvíhliða skráðu í Kauphöllina hér og í Kaupmannahöfn 11. júlí næstkomandi. Áður mun hlutafé bankans verða aukið. Stefnt var að skráningunni fyrr á þessu ári.

Eik Bankinn komst í raðir fimmtán stærstu banka Danmerkur í lok maí með kaupum á SkandiaBanken, stærsta netbanka Danmerkur. Eignir Eik, sem áður kallaðist Föroya Sparikassi, uxu um helming við kaupin og nema um 200 milljörðum íslenskra króna. Til stóð að skrá bankann á fyrsta fjórðungi ársins en kaupin á danska netbankanum urðu til þess að forsendur breyttust og frestaðist skráningin því fram í júlí.

Útboð í bréfum Eik Bank mun standa yfir dagana 21. júní - 5. júlí næstkomandi og verða nýtt til að kaupa SkandiaBanken, að sögn greiningardeildar Kaupþings í gær.

Útboðsgengi bréfanna er 575 danskar krónur á hvern 100 krónu nafnverðshlut. Núverandi hluthafar Eik Bank eiga forkaupsrétt að bréfum bankans. Nýti einhverjir þeirra ekki réttinn geta núverandi og nýir hluthafar hér, í Færeyjum og í Danmörku lagt fram bindandi tilboð um að þeir óski eftir því að kaupa meira en heimildir hljóða upp á.

Haft er eftir Marner Jacobsen, forstjóra Eik Bank, á vef bankans, að hann hlakki til hlutafjáraukningarinnar sem og skráningarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×