Breski fjárfestingasjóðurinn Candover hefur gert formlegt yfirtökutilboð upp á 1,5 milljarða evrur, jafnvirði 125,5 milljarða íslenskra króna, í hollensku samsteypuna Stork.
Tilboðið hljóðar upp á 47 evrur á hlut sem er 19 prósentum yfir meðallokagengi bréfa í Stork síðastliðna þrjá mánuði.
Bandarísku fjárfestingasjóðirnir Centaurus Capital og Paulsons, sem fara með 33 prósenta hlut í Stork, styðja tilboðið.
Marel á 11 prósenta hlut í Stork í gegnum hollenska félagið LME Holding en að því standa sömuleiðis Eyrir Invest og Landsbankinn. Marel hefur sóst eftir því að kaupa matvælavinnsluvélahluta Stork í allnokkurn tíma.
Gangi tilboðið eftir mun Stork verða afskráð af markaði Euronext í Amsterdam, að sögn breska blaðsins Financial Times.