Viðskipti innlent

Útlán Íbúðalánasjóðs 6,3 milljarðar í júlí

Húsnæði Íbúðalánasjóðs.
Húsnæði Íbúðalánasjóðs.

Heildarútlán Íbúðalánasjóðs námu rúmum 6,3 milljörðum króna í síðasta mánuði. Af þeim voru 600 milljónir króna vegna leiguíbúðalána en almenn útlán voru 5,7 milljarðar króna, að því er fram kemur í mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs. Meðallán var tæplega 9,4 milljónir króna.

Í skýrslunni segir að áætlun sjóðsins geri ráð fyrir að útlán á þriðja ársfjórðungi verði á bilinu 13-15 milljarðar króna.

Íbúðalánasjóður bauð ekki út íbúðabréf í júlí og eru útlánsvextir sjóðsins því óbreyttir, 4,80 prósent, fyrir lán án uppgreiðsluákvæðis og 5,05 prósent fyrir lán með uppgreiðsluákvæði.

Ennfremur segir í skýrslunni að ekki sé gert ráð fyrir því að lækkun lánshlutfall almennra lána Íbúðalánasjóðs úr 90 prósentum í 80 prósent muni hafa mikil áhrif á heildarútlán ársins. Þó megi gera ráð fyrir að eitthvað dragi úr lánum til landsbyggðarinnar þar sem íbúðakaupendur á landsbyggðinni hafa helst getað nýtt sér hærra lánshlutfall, að því er segir í mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×