Norska tryggingafélagið Storebrand hefur keypt líftryggingahluta sænska bankans Handelsbanken. Kaupverð nemur 18 milljörðum sænskra króna, tæplega 166 milljörðum íslenskra króna.
Kaupþing og Exista saman rúman fjórðungshlut í Storebrand.Storebrand stefnir að því að veita líftryggingar sænska bankans í Noregi.
Eignir líftryggingahluta Handelsbank, sem nefnist SPP, námu 126 milljörðum norskra króna á fyrri helmingi ársins. Hagnaður af líftryggingarekstrinum nam 2,11 milljörðum norskra króna á síðasta ári.
Þá lækkaði matsfyrirtækið Standard & Poor's lánshæfiseinkunnir líftryggingahluta Storebrand í kjölfar viðskiptanna en horfur eru nú sagðar neikvæðar í stað þess að vera stöðugar, að sögn fréttaveitu Bloomberg.
Gengi bréfa í Handelsbanken hækkaði um 7,8 prósent í OMX-kauphöllinni í Stokkhólmi í Svíþjóð í dag eftir að tilkynnt var um viðskiptin og hefur það ekki hækkað jafn mikið á einum degi í rétt rúm fimm ár. Gengi bréfa í Storebrand hefur hins vegar fallið um sex prósent í Ósló í Noregi.