Helstu hlutabréfavísitölur hafa hækkað á fjármálamörkuðum í dag eftir að Seðlabanki Bandaríkjanna lækkaði stýrivexti í gær meira en vongóðust fjármálasérfræðingar þorðu að vona. Nikkei-hlutabréfavísitalan í Japan hækkaði um heil 3,67 prósent við lokun markaðar í Tókýó í morgun. Hlutabréfavísitölur í Evrópu hafa í dag hækkað um og yfir tvö prósent í dag.
Bandaríski seðlabankinn lækkaði stýrivexti sína um 50 punkta í gær vegna aðstæðna á fjármálamörkuðum. Flestir höfðu hins vegar gert ráð fyrir um 25 punkta lækkun.
Gengi hlutabréfavísitalna í Bandaríkjunum tók stökkið eftir að seðlabankinn greindi frá ákvörðun sinni í gær og hækkaði um á bilinu tvö til þrjú prósent.