Rijkman Groenink, stjórnarformaður hollenska bankans ABN Amro, tilkynnti í dag að hann ætli að segja upp starfi sínu hjá bankanum í kjölfar þess að hópur þriggja banka undir forystu Royal Bank of Scotland tryggði sér yfirtöku á honum.
Hinir bankarnir eru belgíski bankinn Fortis og hinn spænski Santander en þeir höfðu um helgina betur í baráttunni um kaup á bankanum eftir að breski bankinn Barclays sagðist ætla að draga sig í hlé þar sem hann hefði ekki tryggt sér samþykki meirihluta hluthafa fyrir kaupunum.
Tilboðið hljóðar upp á 71,1 milljarð evra, jafnvirði rúmra sex þúsund milljarða króna sem gera viðskiptin að stærstu fyrirtækjakaupum í evrópskum fjármálaheimi.
Baráttan hefur staðið yfir í hálft ár en Groenink, sem hefur starfað í 33 ár hjá ABN Amro, var fylgjandi yfirtökutilboði Barlcays, að sögn vefútgáfu breska dagblaðsins Times.