Viðskipti erlent

Hlutabréf lækka í Bandaríkjunum

Fjárfestar þykja ekki glaðir í Bandaríkjunum í dag eftir að Bank of America, næststærsti banki landsins, skilaði döpru uppgjöri fyrir þriðja ársfjórðung.
Fjárfestar þykja ekki glaðir í Bandaríkjunum í dag eftir að Bank of America, næststærsti banki landsins, skilaði döpru uppgjöri fyrir þriðja ársfjórðung. Mynd/AP

Gengi hlutabréfa lækkaði almennt á fjármálamörkuðum í Bandaríkjunum í dag í kjölfar lélegs uppgjörs bandaríska risabankans Bank of America á þriðja ársfjórðungi.

Hagnaður bankans dróst saman um 32 prósent á milli ára og nam litlum 3,7 milljörðum dala, jafnvirði um 222 milljarða íslenskra króna. Afkoman er talsvert undir væntingum markaðsaðila en þykir endurspegla þau vandræði sem fjármálaheimurinn vestanhafs stendur frammi fyrir í kjölfar samdráttar á fasteignalánamarkaði.

Fréttastofur Bloomberg og Associated Press hafa hins vegar eftir greinendum að óróleiki á fjármálamörkuðum síðustu vikur sem hafi sett skarð í afkomu fjármálafyrirtækja auki líkurnar á því að seðlabanki Bandaríkjanna lækki stýrivexti að loknum næsta vaxtaákvörðunarfundi sínum í enda þessa mánaðar.

Dow Jones-vísitalan hefur lækkað um 0,49 prósent frá því viðskipti hófust vestanhafs í dag, Nasdaq-vísitalan um 0,69 prósent og S&P um 0,49 prósent.

Þetta er í samræmi við þróun á alþjóðlegum hlutabréfamörkuðum í dag. Þar á meðal í Kauphöllinni hér en Úrvalsvísitalan hefur lækkað um 1,02 prósent það sem af er dags.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×