Viðskipti erlent

Hráolíuverð yfir 90 dali á tunnu í fyrsta sinn

Olíudropinn hefur hækkað snarlega í vikunni.
Olíudropinn hefur hækkað snarlega í vikunni. Mynd/AFP

Hráolíuverð í framvirkum samningum fór yfir níutíu bandaríkjadali á tunnu til skamms tíma á fjármálamörkuðum í gærkvöldi en það er hæsta verð sem tunnan hefur nokkru sinni farið í.

Olíuverðið hefur hækkað talsvert í vikunni og snert methæðir dag eftir dag. Helsta ástæðan fyrir hækkanaferlinu er vaxandi spenna í málefnum Tyrkja og Kúrda í Norður-Írak auk þess sem gengi bandaríkjadals hefur lækkað nokkuð gagnvart öðrum gjaldmiðlum.

Verð á hráolíu, sem afhent verður í næsta mánuði, fór í 90,02 dali á tunnu í rafrænum viðskiptum til skamms tíma í gærkvöldi en lækkaði skömmu síðar og endaði í 89,60 dölum á tunnu. Þetta er rúmlega tveggja dala hækkun á milli daga.

Greinendur sögðu í samtali við fréttastofuna Associated Press í kvöld, að fátt styddi við viðlíka hækkun á olíuverðinu enda væri nægt framboð til að sinna eftirspurn og vísuðu til þess að ennfremur hafi olíubirgðir í Bandaríkjunum aukist á milli vikna en það valdi því iðulega að heimsmarkaðsverð á hráolíu lækki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×