Óttast er að nokkuð viðstöðulaus veiking bandaríkjadals gagnvart helstu myntum, ekki síst evru og japanska jeninu, geti sett skarð í afkomutölur evrópska flugvélaframleiðandans Airbus. Þetta sagði Tom Enders, forstjóri félagsins, starfsmönnum fyrirtækisins á fundi í Hamborg í dag.
Gengi bandaríkjadals fór í metlægðir gagnvart evru í dag.
Airbus hefur staðið í viðamikilli og erfiðri hagræðingu innan sinna veggja sökum afleitrar afkomu í kjölfar tafa á framleiðslu A380 risaþotunnar og sagt upp 10.000 manns. Fyrsta risaþotan var afhent Singapore Airlines fyrir nokkru, rúmum tveimur árum á eftir áætlun en allt stefnir í að vel gangi í framleiðslunni á næsta ári.
Veiking bandaríkjadals gæti hins vegar sett strik í reikninginn, að sögn Enders en allt stefnir í að félagið muni skila 776 milljóna evra tapi á þriðja ársfjórðungi samanborið við tap upp á 189 milljón evrur á sama tíma í fyrra. Þá eru líkur á að fyrirtækið skili árinu á sléttu, sem þýðir að það skilar hvorki hagnaði né tapi þegar upp verður staðið, að sögn breska ríkisútvarpsins.