Kanadíski seðlabankinn ákvað í gær að lækka stýrivexti um 25 punkta í 4,25 prósent vegna óvissuástands í efnahagslífinu. Þetta er fyrsta stýrivaxtalækkun bankans í fjögur og hálft ár.
Í rökstuðningi bankastjórnarinnar fyrir lækkuninni segir að gert sé ráð fyrir því að óróleiki á fjármálamörkuðum, sem rekja megi til vanskila á svokölluðum undirmálslánum í Bandaríkjunum og fjármálakreppu hjá bönkum og fjármálafyrirtækjum, muni vara til óákveðins tíma.
Þá segir ennfremur að horfur séu á samdrætti í einkaneyslu í Bandaríkjunum og megi reikna með hægari innflutningi, ekki síst frá Kanada til Bandaríkjanna.
Breska ríkisútvarpið hefur eftir fjármálasérfræðingum að ákvörðun bankastjórnarinnar hafi komið svo á óvart að það auki líkurnar á að Englandsbanki, seðlabanki Bretlands, lækki stýrivexti sína á morgun í stað þess að halda þeim óbreyttum.