Menning

Hljóðbækur sem lifna við

Leikstjórn hálfgert fyrirtæki Jón Gunnar Þórðarson ræðst í rekstur. FRÉTTABLAÐIÐ/ARNÞÓR
Leikstjórn hálfgert fyrirtæki Jón Gunnar Þórðarson ræðst í rekstur. FRÉTTABLAÐIÐ/ARNÞÓR

Jón Gunnar Þórðarson leikstjóri stendur í fyrirtækjarekstri í kringum hljóðbækurnar Íslenskar þjóðsögur, sem nýlega litu dagsins ljós. Fyrirtækið heitir Heyr heyr og sér um hljóðsetningar.

„Okkur fannst þetta vanta. Það er félag sem einbeitir sér algjörlega að hljóðmynd. Það eru til hljóðbækur sem eru í sjálfu sér góðar en þar er helst beinn upplestur. Svo eru til geisladiskar með tónlist. Við vildum láta þetta haldast í hendur og búa til bíómynd á geisladiskaformi, nánast,“ segir Jón Gunnar Þórðarson um fyrirtækið Heyr heyr.

Jón Gunnar hefur aldrei rekið fyrirtæki áður. „Það er nú með leikstjórn að það er hálfgert fyrirtæki. Maður er kominn með reynslu af því að basla í leikhúsi þar sem maður þarf að búa til vinnuna sjálfur. Ég þurfti að gera það með Silfurtunglið og lærði af því. Annars er það nýtt fyrir mér að fara í allar þessar tölur og þess háttar en það er bara spennandi.“

Er Jón Gunnar hræddur við bókhaldið? „Nei. Þess vegna erum við með viðskiptafræðing í fyrirtækinu. Núna eru fjórir starfsmenn. Ég er leikstjórinn, Sindri Þórarinsson er hljóðhönnuður og Egill Antonsson er tónlistarmaður. Svo er Andri Franklin Þórarinsson viðkiptafræðingur og bókhaldari. Þetta er allt í öruggum höndum.“

Diskarnir, sem eru tveir, eru byggðir á Þjóðsögum við þjóðveginn eftir Jón R. Hjálmarsson. Jón Gunnar segir verkefnið hafa orðið til í samræðum um hvað væri hægt að gera. „Það er alltaf gaman þegar maður finnur eitthvað og hugsar, er þetta ekki til? – og svo er það ekki til. Þjóðsögur eru eitthvað sem allir eiga að geta tengt við og hljóðsetningin er nýjung.“ Fjöldi leikara kemur að lestri, en aðalsögumaður er Sigursteinn Másson, sem fólk þekkir úr Sönnum íslenskum sakamálum. Jón Gunnar segir fleiri verkefni í vinnslu hjá Heyr heyr, fyrir börn sem fullorðna. Þeirra að auki eru nokkur fram undan hjá Jóni sjálfum. Leikfélag hans, Silfurtunglið, sýnir Fool for Love á Akureyri, þar sem hann leikstýrir einnig nýju leikriti eftir Bjarna Jónsson.

„Svo eru einhver fleiri plön með Silfurtunglið en það er enn á skemmtilegu stigi. Það verða einhverjir af sömu leikurunum, bara eftir því hvaða verk verður valið. Svo er áframhaldandi samstarf við KK og eitthvað fleira í bígerð.“

kolbruns@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×