Enski boltinn

Drogba missti allt álit á Benitez

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Didier Drogba, leikmaður Chelsea.
Didier Drogba, leikmaður Chelsea. Nordic Photos / Getty Images

Didier Drogba segir að Rafael Benitez sé ekki frábær knattspyrnustjóri og að álit sitt á honum hafi hrapað.

Benitez sagði um helgina að hann hefði tekið saman myndband af Drogba úr öllum viðureignum Chelsea og Liverpool síðan hann tók við síðarnefnda liðinu. Benitez telur að Drogba sé of iðinn við að næla sér í aukaspyrnur með því að láta sig falla of auðveldlega í grasið.

Chelsea tekur á móti Liverpool í síðari viðureign liðanna í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í kvöld. Drogba verður væntanlega í eldlínunni með Chelsea í kvöld og ætlar að hefna sín inn á vellinum.

„Ég bar mikla virðingu fyrir Benitez, þar til nú. Mér fannst hann hafa mikla hæfileika til starfsins og hefur hann valdið mér miklum vonbrigðum. Frábær knattspyrnustjóri myndi aldrei leggjast svo lágt. Hann ætti frekar að einbeita sér að sínu liði. Ef hann vill ekki að ég leggist í grasið ætti hann að segja þeim (Jamie) Carragher og (Martin) Skrtel að hætta að sparka í mig."

Avram Grant, knattspyrnustjóri Chelsea, hefur komið Drogba til varnar. „Ég tel ekki að Drogba sé með mikinn leikaraskap á vellinum. Ég held að Rafa sé að reyna að hafa áhrif á dómara leiksins."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×