Snörp lækkun hefur verið á hlutabréfum frá því viðskipti hófust í Bandaríkjunum í dag. Helsta ástæðan fyrir fallinu er staðfesting bandarísku hagstofunnar á því að kreppa hafi byrjað í Vesturheimi fyrir ári og standi enn yfir.
Í tölunum er tekið fram að neysla hafi dregist saman frá í fyrra, atvinnuleysi aukist og dregið úr framleiðslu.
Þetta er í samræmi við svörtustu væntingar, að mati netmiðilsins investors.com.
Dow Jones-hlutabréfavísitalan féll um fimm prósent strax við upphaf dags og Nasdaq-vísitalan um rúm sex prósent. Gengið hefur jafnað sig lítillega eftir því sem liðið hefur á daginn.