Helstu hlutabréfavísitölur á fjármálamörkuðum í Bandaríkjunum enduðu fyrsta dag vikunnar beggja vegna núllsins. Hagnaðartaka fjárfesta á hlut að máli eftir mikla hækkun í síðustu viku, að sögn Associated Press-fréttastofunnar.
Jákvæðir þættir eiga hlut að máli, svo sem fréttir um að fjármálafyrirtækið Washington Mutual hafi tryggt sér fjármögnun upp á fimm milljarða bandaríkjadala. Þetta olli talsverðri hækkun á gengi hlutabréfa í félaginu sem hefur látið á sjá í dýfunni á mörkuðum frá miðju síðasta ári. Þá eru uppgjör vegna fyrsta ársfjórðungs að skila sér í hús og bíða margir þess sem leynist í tölunum. Fjórðungurinn var hins vegar ekki góður líkt og sást á uppgjöri Alcoa, sem birt var eftir lokun markaða vestanhafs í kvöld.
Dow Jones-hlutabréfavísitalan var nánast óbreytt, hækkaði um 0,02 prósent á meðan Nasdaq-vísitalan lækkaði um 0,26 prósent.