Gengi hlutabréfa í fasteignalánasjóðunum Fannie Mae og Freddie Mac hefur rokið upp á bandarískum markaði í dag eftir björgunaraðgerðir stjórnvalda til að forða þeim frá gjaldþroti.
Gengi bréfa í Fannie Mae hefur hækkað um rúm 33 prósent og Freddie Mac um rúm 30 prósent. Hækkunin hefur verið jöfn og þétt í morgun en bréf Freddie Mac fóru upp um rúm 40 prósent fyrir opnun markaða fyrir nokkrum mínútum. Kauphallair vestanhafs opna eftir rúma tvo klukkutíma.
Sjóðirnir hrundu í síðustu viku og gengi þeirra ekki lægra í 20 ár eftir að bandaríska dagblaðið Wall Street Journal sagði eigið fé sjóðanna á þrotum og sé hætt við að þeir verði gjaldþrota. Þá sagði blaðið að ráðamenn vestanhafs hafi fundað um málefni sjóðanna og lagt til aðgerðir þeim til bjargar.
Það gekk eftir í gær þegar Henry Paulson, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, greip í taumana og lagði til aðgerðir til að forða sjóðunum frá því að lenda í þroti vegna erfiðra aðstæðna á fasteigna- og lánamörkuðum.