Nú er tígurinn löngu dauður og grafinn og verðmæti þessara írsku banka í bókum Danske Bank er aðeins brot af kaupverðinu að því er segir í umfjöllun Berlingske Tidende um málið. Írsku bankarnir sem hér um ræðir eru National Irish Bank á Írlandi og Northern Bank á Norður-Írlandi.
„Með kaupunum á tveimur írskum bönkum stígur Danske Bank á vaxtareldflaug sem hefur vaxið um tugi prósenta á síðustu árum," sagði viðskiptablaðið Börsen á sínum tíma um kaupin.
Eldflaugin hefur hrapað og efnahagslíf írlands liggur í rjúkandi rústum eftir þann skell. Þetta endurspeglast í uppgjöri Danske Bank fyrir fyrstu níu mánuði ársins. Verðmæti írsku bankanna tveggja er nær gufað upp.
„Verðmæti þessara tveggja írsku banka er núll. Ég reikna ekki með krónu frá þeim í verðmati mínu á Danske Bank," segir Andreas Håkansson greinandi hjá svissneska bankanum Credit Suisse.
Annar greinandi segir að hann meti verðmætið lítið í þessum bönkum. „Þeir eru ekki lengur taldir með í heildarverðmati á Danske Bank. Þeir voru hræðileg fjárfesting á sínum tíma," segir hann.
Christian Hede greinandi hjá Jyske Bank segir að Danske Bank hafi afskrifað stærastan hluta af viðskiptavildinni hjá báðum írsku bönkunum, en haldi að vísu viðskiptavild upp á 1,8 milljarða danskra kr. hvað Northern Bank varðar í bókum sínum. „En megnið af 10,4 milljarða kr. kaupverðinu er horfið," segir Hede.