Viðskipti erlent

Spilavítaveldi Donald Trump riðar til falls

Fastlega er gert ráð fyrir því að spilavítaveldi Donald Trump, Trump Entertainment Resorts, verði tekið til gjaldþrotaskipta í dag.

Samkvæmt fréttum á Reuters og fleiri fjölmiðlum yrði þetta í þriðja sinn sem Trump Entertainment verður gjaldþrota en slíkt gerðist síðast árið 2005.

Fjármálakreppan hefur leikið Trump grátt á undanförnum mánuðum og hefur markaðsvirði Trump Entertainment hrunið á fjórum árum úr 842 milljónum dollara niður í 7,3 milljónir dollara í dag. Félagið rekur þrjú spilavíti í Bandaríkjunum.

Donald Trump segir í samtali við Bloomberg-fréttaveituna að hann sé mjög óánægður með afstöðu kröfuhafa og gjörðir þeirra í garð Trump Entertainment. Hann bætti því svo við að hann persónulega hefði ekkert með málið að gera og vissi ekki hvenær félag hans yrði tekið til gjaldþrotaskipta.

Donald segir að sökin á því hvernig komið er fyrir spilavítaveldi hans sé fyrsta og fremst léleg stjórnun á félaginu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×