Heimsmarkaðsverð á olíu var í mikilli uppsveiflu á mörkuðum í gær. Þannig hækkaði bandaríska léttolían um 11% yfir daginn og endaði í tæpum 47 dollurum á tunnuna í gærkvöldi.
Hækkunin á Norðursjávarolíunni var rúmlega 8% á sama tíma og endaði tunnan af henni í tæpum 45 dollurum.
Í frétt um málið á e24.no segir að tvær meginástæður séu fyrir þessari hækkun nú.
Í fyrsta lagi eru æ fleiri nú sannfærðir um að OPEC, samtök olíuframleiðsluríkja, muni draga enn frekar úr framleiðslu sinni og verður samdrátturinn ákveðinn á fundi samtakana í Vín á sunnudaginn kemur.
Og í öðru lagi sýna nýjar tölur frá Bandaríkjunum að almenningur þar dregur ekki eins mikið úr neyslu sinni og spár gerðu ráð fyrir þar á meðal hvað eldsneytiskaup varðar.