Viðskipti erlent

Manarbúar fá greitt af reikningum sínum í Kaupþingi

Þeir íbúar á eyjunni Mön á Bretlandseyjum sem áttu fé inn á reikningum Singer og Friedlander, banka Kaupþings, munu fá fé sitt endurgreitt upp að vissu marki.

Stjórnvöld á eyjunni hafa ákveðið að greiða þessu fólki út innistæður sínar að upphæð allt að 10.000 pundum eða rúmlega 1,6 milljón kr. á hvern reikning. Þetta þýðir að um 40% innistæðueigenda fá endurgreitt á næstu dögum og aðrir síðar.

Um leið og þessi ákvörðun lá fyrir var ákveðið að uppskiptin á þrotabúi Singer & Friedlander á Mön myndu fara fram þann 19. febrúar.

Samkvæmt frétt um málið í Telegraph gerir ákvörðun stjórnvalda á Mön ráð fyrir að 54% innistæðueigenda fái endurgreitt fé sitt innan þriggja mánaða, 65% innan árs og 71% innan tveggja ára.

Þetta er þó háð því hve vel gengur að selja eignir þrotabúsins og hve mikið fæst fyrir þær. Fyrir utan eignirnar kemur fé til endurgreiðslur frá ríkissjóði eyjunnar og bankageira hennar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×