Viðskipti erlent

French Connection tapaði 2,7 milljörðum í fyrra

Verslanakeðjan French Connection sem Baugur á 20% hlut í tapaði 17,4 milljónum punda fyrir skatt eða rúmlega 2,7 milljörðum kr. Árið 2007 varð hinsvegar 3,1 milljón punda hagnaður af rekstrinum.

Í frétt um málið í blaðinu Times er haft eftir Stephan Marks að niðurstaðan á uppgjöri ársins valdi vonbrigðum en endurspegli erfiðleikana sem við er að glíma í fjármálakreppunni. Og Marks bætti við að þetta ár verði einnig erfitt fyrir reksturinn.

Mesta tapið hjá French Connection varð í Bandaríkjunum þar sem niðursveiflan í verslunargeiranum varð enn meiri en í Bretlandi. Salan vestanhafs minnkaði um 3% og þá einkum á seinnihluta ársins.

Í framhaldi af þessu hefur markaðsvirði starfsemi French Connection í Bandaríkjunum verið færð niður um tæplega 11 milljón dollara eða um 1,4 milljarða kr.

Salan í Bretlandi og Evrópu jókst hinsvegar um 2% á síðasta ári.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×