Sport

Haukarnir geta unnið níunda leikinn í röð í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sigurbergur Sveinsson skoraði 8 mörk fyrir Hauka þegar Víkingar heimsóttu þá síðast.
Sigurbergur Sveinsson skoraði 8 mörk fyrir Hauka þegar Víkingar heimsóttu þá síðast. Mynd/Anton

Haukar geta náð þriggja stiga forskoti á Val í N1 deild karla í handbolta vinni þeir botnlið Víkinga á Ásvöllum í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 19.30. Eftir leik kvöldsins eiga öll liðin í deildinni aðeins eftir að spila fimm leiki.

Þetta er frestaður leikur frá því að Haukar voru að taka þátt í Evrópukeppninni á dögunum en Haukaliðið hefur verið á mikilli siglingu í deildinni á nýju ári og unnu síðast 25-22 sigur á Val í toppslag deildarinnar.

Sigurganga Íslandsmeistaranna er orðin löng því vinni Haukar leikinn í kvöld þá hafa þeir unnið níu deildarleiki í röð eða alla leiki síðan að þeir töpuðu 28-29 fyrir nágrönnum sínum í FH í Kaplakrika 5. nóvember á síðasta ári.

Haukar hafa unnið báðar viðureignir félaganna í vetur, fyrst fjórtán marka sigur á Ásvöllum í októberlok, 37-23, og svo þriggja marka sigur í Víkinni, 25-22, í desember.

 










Fleiri fréttir

Sjá meira


×