Viðskipti erlent

Kaupþing greiðir allar innistæður Edge í Þýskalandi

Skilanefnd Kaupþings hefur tryggt fjármagn til að greiða út innistæður Kaupthing Edge í Þýskalandi að fullu. Um 30.000 sparifjáreigendur munu því fá innistæðar sínar í netbankanum Edge greiddar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá skilanefndinni.

Þá segir að upphæðin sem um ræðir sé um það bil 330 milljónir evra eða rúmlega 55 milljarðar íslenskra króna. Skilanefnd Kaupþings banka hefur lagt ríka áherslu á að greiða allar forgangskröfur til sparifjáreigenda. Með endurgreiðslu innistæðna í Edge útibúi Kaupþings í Þýskalandi lýkur endurgreiðslu til allra sparifjáreigenda útibúa Kaupþings erlendis, en slíkum greiðslum er þegar lokið í Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og Austurríki.

Ennfremur segir að skilanefndin hafi frá því í haust unnið hörðum höndum að því að tryggja verðmæti eignasafns bankans og nú sé ljóst að innistæðurnar verða greiddar af bankanum og því munu engar kröfur sparifjáreigenda Kaupthing Edge falla á íslenska ríkið eða íslenska skattgreiðendur. Endurgreiðsla innistæðna munu fara fram þrátt fyrir að þýski bankinn DZ Bank AG hafi fryst 55milljónir evra af innistæðum sparifjáreigenda Kaupthing Edge sem ætlaðar voru til að greiða út innistæður. Bankinn vinnur nú að tæknilegri útfærslu á greiðslu innistæðnanna í góðri samvinnu við yfirvöld í Þýskalandi.

„Þetta er afar ánægjuleg niðurstaða. Við höfum nú tryggt að allar forgangskröfur á bankann verði greiddar af bankanum. Það munu engar skuldbindingar vegna Edge reikninga erlendis lenda á skattgreiðendum. Innistæðueigendur eru þó aðeins hluti kröfuhafa og skilanefndin mun áfram leggja áherslu á að hámarka virði eigna bankans," segir Steinar Þór Guðgeirsson, formaður skilanefndar Kaupþings.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×