Stjórnendur flugfélaganna United Airlines og Continental Airlines skrifuðu í dag undir samning um samruna flugfélaganna tveggja. Með samrunanum verður til stærsta flugfélag í heimi.
Fréttastofa BBC segir að samningurinn nemi um 3,2 milljörðum bandaríkjadala, eða um 413 milljörðum íslenskra króna. Flugfélagið mun heita United Airlines en merki félagsins verður með litum gamla Continental flugfélagsins.
Hlutabréf í flugfélögunum hækkuðu í verði á markaði í New York eftir að tilkynnt var um viðskiptin í dag.
