Svissneska lyfjafyrirtækið Galderma hefur hafið mál gegn Actavis fyrir dómstóli í Wilmington í Delaware í Bandaríkjunum.
Galderma ákærir Actavis fyrir að hafa brotið gegn tveimur einkaleyfum sínum á lyfinu Differin sem vinnur gegn útbrotum og bólum í andliti en þessir kvillar hrjá einkum unglinga.
Í frétt um málið á Bloomberg fréttaveitunni segir að annað einkaleyfið sé frá í fyrra en hitt var skráð í júní síðast liðnum. Einkaleyfin ná yfir efnasamsetninguna adapalene sem er notuð gegn útbrotunum á húð.
Actavis er ákært fyrir að hafa framleitt samheitalyfjaútgáfu af adapalene geli sem Galderma framleiðir.
Í yfirlýsingu segir Galderma að fyrirtækið verði fyrir varanlegum skaða ef Actavis fái að halda áfram að framleiða samheitalyf sitt. Galderma fer fram á að samheitalyfið verði tekið af markaði þar til einkaleyfin á því renna út.