Ekkert lát er á holskeflu gjaldþrota hjá fyrirtækjum í Danmörku. Samkvæmt nýjum tölum urðu 583 fyrirtæki gjaldþrota í september en þetta er 20% aukning frá sama mánuði í fyrra.
Samkvæmt frétt á vefsíðunni business.dk hefur aukning á gjaldþrotum fyrirtækja í Danmörku verið að jafnaði rúm 16% á mánuði undanfarið ár.
Verst er ástandið utan þéttbýlissvæða á stöðum eins og Mið- og Vestur Jótlandi, Lollandi og Falster. Efnahagskreppan í Danmörku er undirrót þessarar gjaldþrotabylgju.
Góðu fréttirnar eru hinsvegar að tæplega 1.700 ný fyrirtæki voru stofnuð í landinu í september sem er aukning um 8,5% frá sama mánuði í fyrra.