Handbolti

Sveinbjörn: Fúlir í kvöld en brosum kannski á morgun

Rafnar Orri Gunnarsson skrifar
Sveinbjörn Pétursson.
Sveinbjörn Pétursson. Mynd/Stefán
„Það er hundleiðinlegt að eiga fínan dag annan leikinn í röð en það dugar ekki," sagði Sveinbjörn Pétursson, markvörður HK, eftir tap gegn Haukum í öðrum leik liðanna í undanúrslitaviðureign N1-deild karla í handbolta. Leiknum lauk með tveggja marka sigri Hauka 19-21 og HK-menn eru á leið í sumarfrí.

„Þetta er hópíþrótt og vantaði fleiri til að stíga upp og sóknarlega áttum við marga inni. Mér finnst í raun ótrúlegt að við höfum náð að skora nítján mörk," bætti Sveinbjörn við.

HK-menn voru lengi að finna taktinn í sókninni og var það ekki fyrr en síðustu tíu mínúturnar sem að þeir söxuðu á forskotið og náðu að jafna í kjölfarið. En Haukarnir kláruðu leikinn og segir Sveinbjörn að menn hafi vaknað alltof seint.

„Það var bara of seint í rassinn gripið hjá okkur að fara vakna þá. Þeir voru kannski klaufar að vera ekki búnir að skilja ekki eftir en við fengum séns til að koma okkur inn í leikinn og gerðum það. En við vorum svo óheppnir í endan og nýttum ekki sénsinn.

Sveinbjörn segir samt sem áður að sínir menn í HK geta verið ánægðir með veturinn.

„Ég held að við HK-ingar getum bara verið stoltir af þessum vetri. Það bjóst enginn við neinu af okkur og flest liðin voru búin að afskrifa okkur en við bara sýndum það að við áttum helling inni. Þetta er flottur hópur og margir ungir strákar sem fengu að spila lykilhlutverk í þessu liði og leystu það mjög vel. Svo má ekki gleyma Vilhelm Gauta og Bjarka Má en þeir eru búnir að vera frábærir í vetur og ég á þeim persónulega mikið að þakka.

„Við verðum fúlir í kvöld en brosum kannski á morgun," sagði þessi magnaði markvörður í leikslok.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×