Heimsmarkaðsverð á olíu heldur áfram að hækka og stefnir nú hraðbyri í 120 dollara á tunnuna. Verðið fyrir Brent olíuna hækkaði um 1% í morgun og stendur í 117,3 dollurum. Verðið fyrir bandarísku léttolíuna hækkaði um 1,9% og stendur í 106,4 dollurum.
Fjallað er um málið á Bloomberg fréttaveitunni. Þar er haft eftir olíumiðlara að allir telji að bardagarnir í Líbýu muni halda áfram og að óeirðirnir muni breiðast út til annarra Arabalanda. Á sama tíma hafa fjárfestingar í olíu aukist.
Samkvæmt frétt Bloomberg fylgjast menn nú grannt með þróun mála í Írak, Íran og Saudi Arabíu. Fari svo að órói og mótmæli blossi upp í þessum löndum gæti olíuverðið hæglega farið yfir 150 dollara á tunnuna.
Olíuverðið á hraðleið í 120 dollara á tunnuna
