Enski boltinn

Mertesacker spenntur fyrir því að spila í enska boltanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Per Mertesacker.
Per Mertesacker. Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Þýski landsliðsmiðvörðurinn Per Mertesacker hefur mikinn áhuga á því að fá að reyna sig í enska úrvalsdeildinni en þessi 26 ára gamli leikmaður spilar með Werder Bremen. Hann verður í byrjunarliði Þýskalands á móti Kasakstan í undankeppni EM í kvöld.

„England hefur verið inn í myndinni hjá mér í mörg ár en ég get ekki tekið neina ákvörðun strax. Enska úrvalsdeildin er mjög spennandi en það sem ég einbeiti mér nú að er að halda Werder Bremen í deildinni," sagði Per Mertesacker.

Per Mertesacker er með samning við Werder Bremen til ársins 2012 og síðasti möguleikinn fyrir þýska félagið að fá eitthvað fyrir leikmanninn væri að selja hann næsta sumar. Hann er á besta aldri fyrir miðvörð, kominn með góða reynslu og gæti því verið spennandi kostur fyrir mörg félög.

Mertesacker er 198 sm á hæð og hefur spilað með þýska landsliðinu frá árinu 2004 samtals 73 leiki. Hann lék með Hannover 96 áður en hann kom til Werder Bremen árið 2006.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×