Al Wasl liðið frá Dúbæ hefur boðið í Úrúgvæmanninn Diego Forlan hjá Atletico Madrid en félagið, sem réði nýverið Diego Maradona í stöðu þjálfara, vill fá leikmanninn á láni í eitt ár.
Atletico Madrid hafnaði fyrsta tilboði Al Wasl sem sendi þá nýtt og betra tilboð til baka. Forlan var á leiðinni í heimsókn til Dúbæ til að ræða kaup og kjör en þeirri heimsókn var frestað á meðan beðið er eftir svari frá Madrid.
Forlan er 32 ára gamall framherji sem átti frábært heimsmeistaramót síðasta sumar en gekk ekki nógu vel í spænsku deildinni í vetur. Það voru líka fréttir af ósætti milli hans og Quique Sanchez Flores, þjálfara Atletico, sem eiga þátt í því að Forlan vill nú fara frá félaginu.
Maradona kemur til starfa hjá Al Wasl í næsta mánuði en félagið er sjöfaldur meistari í Sameinuðu arabísku Furstadæmunum. Samkvæmt fréttum frá Dúbæ er Forlan aðeins fyrsti af mörgum stórstjörnum sem verður boðið til félagsins.
