Körfubolti

Helena hækkaði stigaskorið sitt í hverjum leik á æfingamótinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helena Sverrisdóttir og félagar hennar í Good Angels Kosice tryggðu sér öruggan sigur á æfingamóti sem fram fór á heimavelli liðsins um síðustu helgi. Kosice vann þrjá flotta sigra þar á meðal á ungverska liðinu Sopron sem mun spila í Euroleague í vetur eins og Kosice-liðið.

Helena hækkaði stigaskorið sitt í hverjum leik og finnur sig greinilega betur og betur í gula búningnum. Hún skoraði fimm stig í fyrsta leiknum þegar liðið vann 76-33 sigur á ICIM Univ. Goldis Arad frá Rúmeníu.

Helena skoraði 10 stig þegar Kosice vann pólska liðið Widzew Lodz 102-45 og var síðan með 21 stig í úrslitaleiknum þegar Kosice vann 71-59 sigur á ungverska liðinu UNIQA Euroleasing Sopron. Helena var stigahæsti leikmaðurinn á vellinum í úrslitaleiknum.

Helena skoraði alls 36 stig í leikjum þremur eða 13 stig að meðaltali í leik. Helena var næststigahæst í liðinu á mótinu en stigahæst var slóvakíski framherjinn Lucia Kupcíková með 15,3 stig að meðaltali í leik.

Það má sjá Helenu í leik með Good Angels Kosice á heimasíðu félagsins en sýnd eru brot úr leik liðsins á meðan að þjálfarinn Stefan Svitek er í viðtali. Það er hægt að sjá myndbandið með því að smella hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×