Körfubolti

Eiga Frakkar möguleika á að vinna fyrsta gullið sitt í körfunni?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tony Parker og félagar fagna sigri.
Tony Parker og félagar fagna sigri. Mynd/AP
Franska landsliðið í körfubolta hélt sigurgöngu sinni áfram á EM í körfubolta á föstudaginn þegar liðið vann sex stiga sigur á heimamönnum í Litháen, 73-67. Frakkar hafa unnið alla sjö leiki sína í keppninni til þessa og gera frábæra hluti undir stjórn Vincent Collet.

Frakkar hafa aldrei unnið gull á stórmóti og komust síðast í úrslitaleik á Evrópumóti árið 1949. Besti árangur Frakka á stórmótum undanfarin ár voru silfurverðlaun liðsins á Ólympíuleikunum í Sydney árið 2000 en síðast unnu þeir verðlaun á Em þegar þeir tryggðu sér bronsið árið 2005.

Nando de Colo, leikmaður Valencia á Spáni, var hetja Frakka á föstudaginn þegar hann skoraði 13 af 21 stigi sínu í lokaleikhlutanum. San Antonio Spurs valdi De Colo í nýliðavalinu 2009 en hann var einnig með 4 fráköst og 5 stolna bolta í leiknum.

Joakim Noah, leikmaður Chicago Bulls, var með 9 stig og 13 fráköst í leiknum og Tony Parker, leikmaður San Antonio Spurs, skoraði 19 stig. Parker hefur verið besti leikmaður liðsins í keppninni en hann er með 22,1 stig og 4,7 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Það eru fleiri NBA-leikmenn í franska liðinu: Nicolas Batum, bakvörður Portland Trail Blazers, Boris Diaw, kraftframherji Charlotte Bobcats og Kevin Seraphin, miðherji Washington Wizards.

Frakkar mæta Evrópumeisturum Spánverja í lokaleik milliriðilsins í dag og er það úrslitaleikur um sigur í riðlinum. Framundan eru síðan útsláttarkeppnin en átta liða úrslitin hefjast eftir helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×