Danski leikstjórinn Lars von Trier hefur sett þekktan húsbíl sinn til sölu á eBay. Leikstjórinn vill fá 150.000 dollara eða 17,5 milljónir kr. fyrir gripinn þótt hann sé orðinn meir en tíu ára gamall.
Í frétt um málið í Jyllands Posten segir að Trier hafi ætíð þjáðst af flughræðslu og því hafi hann notað bílinn m.a. til að keyra þúsundir kílómetra í hvert sinn sem hann þurfti að fara á kvikmyndahátíðina í Cannes í suðurhluta Frakklands.
Húsbíllinn er keyrður 120.000 km og er með svefnpláss fyrir fjóra. Hann er sagður í ágætu ásigkomulagi.
Trier segir í auglýsingu sinni á eBay að það verði léttir fyrir hann að losna við lyktina af díselolíu. Hann vonar að væntanlegur kaupandi hafi ekkert á móti díselolíulykt því slíkri olíu hefur oft verið hellt á gólf bílsins.
Eins og kunnugt er hefur Lars von Trier meðal annars leikstýrt Björk í mynd sinni Dancer in the Dark.