Skoðun

Hvað er veikt umboð?

Það er eðlilega mikið rætt um stjórnlagaráðið. Þar hafa 25 einstaklingar ákveðið að sinna þeirri lýðræðislegu skyldu sem þjóðin og Alþingi kalla þá til að semja tillögu að nýrri stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland.

Það hefur flest verið reynt til þess að koma í veg fyrir að þessi tilraun tækist. Síðast var úrskurður sexmenninganna í Hæstarétti alvarleg atlaga. Sjálfstæðisflokkurinn beitti sér gegn þessari tilraun. Hann hefur yfirleitt verið á móti endurskoðun stjórnarskárinnar. Þó er frá því ein alvarleg undantekning. Það var 1995 þegar mannréttindakaflinn var skrifaður inn í stjórnarskrána í samkomulagi allra flokka á Alþingi. Þá hafði Geir H. Haarde forystu um málið af hálfu síns flokks. Þá hafa oft verið gerðar breytingar á kosningaköflum stjórnarskrárinnar, 1959, 1983, 1999. Alltaf í samkomulagi. En það samkomulag hefur ekki síst verið háð vilja Sjálfstæðisflokksins. Hann hefur í raun ákveðið efnið og hraðann.

Nú er hins vegar margt jákvætt að gerast einmitt af því að Sjálfstæðisflokkurinn ræður ekki. Þetta er ekki sagt nema af því að það er staðreynd og ekki af neinni meinbægni í garð íhaldsins.

Eitt af því sem er að gerast af því að Sjálfstæðisflokkurinn er ekki við völd er víðtæk vinna við endurskoðun stjórnarskrárinnar. Það er fagnaðarefni. Og stjórnlagaráð er orðið til. Það er skynsamleg lausn á flókinni stöðu.

Nú bíðum við hin spennt eftir niðurstöðunni og munum samviskusamlega fylgjast með umræðum í stjórnlagaráði. Verða þær ekki örugglega í heyrenda hljóði? Verður almennilegt pláss fyrir áheyrendur því fleiri en ég munu vilja fylgjast með. Verður umræðum kanski sjónvarpað um útsendingarkerfi Alþingis?

Heyrst hefur frá andstæðingum málsins að stjórnlagaráðið hafi veikt umboð. Ekki hefur verið skilgreint í hverju sú veiking er fólgin. Hvernig munu þeir sem telja sig hafa veikt umboð vinna öðru vísi en þeir sem hafa sterkt umboð? Fróðlegt verður að fylgjast með því. Vonandi sést enginn munur á þessu fólki; vonandi verður þjóðarheill leiðarljósið í vinnu hvers stjórnlagaráðskarls og hverrar stjórnlagaráðskonu.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×