- Breytt stjórnskipan: Hér er nú pólitískt virkur forseti og beint lýðræði að frjálsri ákvörðun hans hvenær sem hann ákveður.
- Kreppa í stjórnskipan: Engar hömlur eru á ákvörðun forseta, engar takmarkanir á fjármögnun kosningabaráttu fyrir þjóðaratkvæði eða ákvæði um lágmarksþátttöku kjósenda. Stjórnskipuleg staða Alþingis er í lausu lofti.
- Umsókn um aðild að ESB er gjörtapað mál. Trúlega er farsælast að stöðva ferlið með vinsamlegum hætti þegar á næstu vikum.
- Aðild Íslands að ESB verður ekki samþykkt hér án þess að Álandseyjaákvæði, Azoreyjaákvæði og Möltuákvæði verði afdráttarlaus í samningsfrumvarpi. Líklega hefur utanríkisráðuneytið ekki skilning á þessu, þannig að málið er gjörtapað hvort eð er.
- Þreyta og vonbrigði forystumanna ríkisstjórnarinnar eru beinlínis átakanleg. Stjórnin er bæði helsærð og helsjúk. Hún getur ekki skilað starfi en hefur ekki burði til að hrökklast frá heldur.
- Leiðtogar beggja stjórnarflokkanna heyja enn hetjulega baráttu við ofurefli innan húss sem utan. Nú bíða félagar þeirra bara eftir því að foringjarnir rými sætin. Fram undan er forystukreppa í báðum stjórnarflokkunum.
- Forystuflokkur stjórnarandstöðunnar, Sjálfstæðismenn, þarf að fá nokkra mánuði til að ná áttum og verða fær um að taka stjórnarábyrgð. Ekki er alveg ljóst hvaða stefna verður ofan á þar, hvort núverandi foringja tekst að semja um frið eða hverjir aðrir hirða forystusætin.
- Gjáin milli núverandi stjórnarflokka og forystu Framsóknarflokksins hefur breikkað og dýpkað. Líklega eiga Framsóknarmenn nú aðeins kost á að verða stoð við Sjálfstæðisflokkinn. Staða forystu Framsóknarmanna virðist mjög sterk innan flokks, en þó vekur furðu hve fáir virðast hafa tekið þátt í flokksþingi og kosningu formanns.
- Fram undan er þóf, tafir og streita í flestum þjóðmálum. Dómsmál um Icesave tekur nokkur ár og hvert ár kostar 30-40 milljarða króna til viðbótar við annað. Fram undan er endurmat og nýtt þóf um flesta viðskipta- og fjárfestingarkosti. Nokkra mánuði þarf til að endurmeta og endursemja um erlend lánamál.
- Óskynsamlegar skattabreytingar leggjast því ennþá þyngra á atvinnulífið og þar harðnar á dalnum. Áhrif á lánagreiðslur almennings, á atvinnuástand og laun fylgja þessu.
- Í grunni er íslenska þjóðfélagið sterkt, lýðræðið virkt og útflutningsgreinarnar öflugar. Veikleikar okkar Íslendinga eru sundrung, tortryggni, rógur og níð. Hér er allt í hnút. Nú þarf alþingiskosningar sem allra fyrst til að höggva á hnútinn.