
Rannsóknarnefndir og réttlæti
Lögfræðingar hafa að sjálfsögðu engan einkarétt á umfjöllun um lögfræði, réttlæti og réttarríkið og því ánægjulegt að vita til þess að aðrir velti þessum hugtökum fyrir sér. Ég hef margoft ritað pistla um þessi hugtök og gjarnan deilt á þá sem telja pólitískar skoðanir sínar sérstakt réttlætismál og að lögin eigi að víkja þegar þau samrýmast ekki þeirra réttlæti. Ég tel slíka hugmyndafræði beinlínis andstæða réttarríkinu.
Það er ekkert athugavert við það að menn láti í ljós skoðun sína um að dómstólar hafi ranglega sakfellt sakaða menn eða á grundvelli ónógra sönnunargagna, enda deila lögfræðingar um það daglega í dómsölum landsins. Það er heldur ekkert athugavert við það að telja einstaka dóma ranga, eins og kollegi Einars hafði reiknað út með ákvörðun Hæstaréttar um lögmæti kosninga til stjórnlagaþings. En vandinn hjá stærðfræðingunum er sá að þeir gefa sér ýmsar forsendur um staðreyndir málsins.
Í greininni gefur Einar sér þær forsendur að játningar sakborninga í Guðmundar- og Geirfinnsmálunum hafi verið fengnar með pyntingum og að þær hafi ekki verið trúverðugar. Og enn bætir Einar í þegar hann fullyrðir að lögregla og dómstólar hafi framið illvirki á sakborningum í málinu, burtséð frá því hvort þeir ættu þar nokkra sök. Því verði að skipa rannsóknarnefnd til að rannsaka málið niður í kjölinn.
Dómstólar, sem meta eiga sönnunargögn lögum samkvæmt, töldu hins vegar játningar sakborninga í Guðmundar- og Geirfinnsmálunum trúverðugar og breyttan framburð einstakra sakborninga síðar fyrir dómi, þar sem játningar voru dregnar til baka, ótrúverðugan. Einnig fór fram rannsókn á meintum pyntingum áður en málið kom til Hæstaréttar þar sem niðurstaðan var sú að ekkert benti til þess að játningar væru fengnar með þeim hætti. Rétt er að benda á í þessu sambandi að játningar sakborninga í Guðmundarmálinu komu fram eftir stuttan tíma í gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar á öðru máli. Sakborningar voru mörgum sinnum leiddir fyrir dómara við rannsókn málsins með verjendum sínum án þess að draga framburð sinn til baka. Það var ekki fyrr en fyrir dómi, eftir útgáfu ákæru, sem sumir drógu framburð sinn til baka en þó ekki allir og hafa ekki enn gert það. Framburður sakborninga var ekki eingöngu um eigin sök heldur einnig vitnisburður um sök annarra. Þessar aðstæður við sönnunarfærslu eru alþekktar í sakamálum og til að mynda í fíkniefnamálum þar sem sakfellt er fyrir innflutning á fíkniefnum á grundvelli framburða sakborninga við rannsókn málanna án þess að nokkur fíkniefni finnist og sakborningar dragi framburð sinn til baka fyrir dómi eftir útgáfu ákæru. Þá er það regla frekar en undantekning í kynferðisbrotamálum að sakborningar eru sakfelldir á grundvelli mats á trúverðugleika kæranda og sakbornings án þess að öðrum beinum sönnunargögnum sé til að dreifa.
Ég er sammála skoðun forseta Lagadeildar HÍ um að löggjafinn eigi ekki að setja á laggirnar rannsóknarnefndir til að yfirfara endanlega úrlausn Hæstaréttar, æðsta handhafa hins sjálfstæða dómsvalds. Það er ekki hægt að tala um sjálfstæði dómsvaldsins ef pólitískt skipaðar rannsóknarnefndir eiga síðan að yfirfara niðurstöðu dómstóla hvað þá að breyta þeim í kjölfar slíkra rannsókna. Þrígreining ríkisvaldsins byggir á því að sjálfstæði hvers um sig veiti hinum aðhald. Það hefur ekkert með það að gera að veita dómsvaldinu aðhald að hinn pólitíski meirihluti hverju sinni breyti niðurstöðu dómsvaldsins í einstökum málum vegna þess að hann telji hana ranga. Með því er verið að grafa undan sjálfstæði dómsvaldsins og frekar ætti að flokka það sem valdníðslu en aðhald.
Hugmyndafræði Einars og margra pólitískra samherja hans um að löggjafinn skipi rannsóknarnefndir til að yfirfara endanlega niðurstöðu dómstóla hefur verið nokkuð áberandi seinustu misseri. Ég minnist þess að einn viðmælandi þáttastjórnandans í Silfri Egils, eðlisfræðingur og hagfræðingur að mennt, taldi rétt að skipuð yrði nefnd til að fara yfir dóma Hæstaréttar eftir að rétturinn hafi að hans mati komist að rangri niðurstöðu í máli Vilhjálms Bjarnasonar gegn stjórnarmönnum Glitnis banka. Það er í sjálfu sér allt í lagi að hafa slíkar skoðanir en þær hafa ekkert með hugtökin réttlæti og réttarríki að gera.
Það eru hins vegar til frambærileg rök fyrir því að rýmka heimildir til endurupptöku mála. Ég sé aftur á móti ekki rök til þess að Guðmundar- og Geirfinnsmálinu verði endurupptekin þar sem sönnunin fólst aðallega í mati á framburði sakborninga og vitna. Það eru engar forsendur fyrir nýja dómara í dag að endurmeta framburð þeirra nú, án þess að ný gögn komi fram sem skipt geti máli.
Að lokum verð ég að lýsa furðu minni á ómaklegri aðför Einars að stjórnendum rannsóknarinnar og dómurum sem dæmdu í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu að hætti pólitískra ofstækismanna. Þeir rannsakendur og dómarar sem komu við sögu í málinu eru ekki þekktir illvirkjar, heldur þvert á móti. Flestir þeirra hafa lagt mikið af mörkum til lögfræðinnar og eiga stóran þátt í því að við búum við réttarkerfi sem jafnast á við það besta sem þekkist í lýðræðisríkjum.
Skoðun

Áfangasigur í baráttunni við hernaðinn gegn heimkynnum villta laxins
Ingólfur Ásgeirsson,Árni Baldursson skrifar

Þetta er allt hinum að kenna!
Helgi Brynjarsson skrifar

Þjóðþrifamálin sem stjórnarandstaðan fórnaði á altari útgerðanna
Heimir Már Pétursson skrifar

Sleppir ekki takinu svo auðveldlega aftur
Hjörtur J. Guðmundsson skrifar

Opið bréf til fullorðna fólksins
Úlfhildur Elísa Hróbjartsdóttir skrifar

Vill Sjálfstæðisflokkurinn láta taka sig alvarlega?
Dagbjört Hákonardóttir skrifar

Þjórsá í hættu – Hvammsvirkjun og rof á náttúrulegu ástandi árinnar
Gunnar Þór Jónsson skrifar

Undirbúum börnin fyrir skólann með hjálp gervigreindar
Sigvaldi Einarsson skrifar

Enginn skilinn eftir á götunni
Dagmar Valsdóttir skrifar

Ég hef ofurtrú á manneskjunni í forvörnum og öryggi á bæjarhátíðunum
Arnrún María Magnúsdóttir skrifar

Stúdentar eiga ekki að borga fyrir vanfjármögnun háskólanna
Ármann Leifsson,María Björk Stefánsdóttir skrifar

Hví borgar útgerðin – ekki malarnáman?
Guðmundur Edgarsson skrifar

Vantraust Flokks fólksins á Viðreisn
Hjörtur J. Guðmundsson skrifar

48 daga blekking: Loforð sem leiðir til lögbrota?
Svanur Guðmundsson skrifar

Frá vinnuþræli til ríkisborgara: Ég er innflytjandi sem þið getið ekki losnað við
Ian McDonald skrifar

Málþóf á kostnað ungs fólks
Lísa Margrét Gunnarsdóttir skrifar

Tóbakslausar nikótínvörur - Tímabært að horfast í augu við staðreyndir
Bjarni Freyr Guðmundsson skrifar

Ómeðvituð vörn í orðræðu – þegar vald ver sjálft sig
Þórdís Hólm Filipsdóttir skrifar

Við krefjumst sanngirni og aðgerð strax
Dagmar Valsdóttir skrifar

Verið öll hjartanlega velkomin á Unglingalandsmót á Egilsstöðum
Jónína Brynjólfsdóttir skrifar

Úrsúla og öryggismálin - Stöndum gegn vígvæðingu
Guttormur Þorsteinsson skrifar

Verðmætatap auðlindagjaldanna – Hverra og hvernig?
Haukur V. Alfreðsson skrifar

Ertu nú alveg viss um að hafa læst hurðinni?
Sanna Magdalena Mörtudóttir skrifar

Sanngirni að brenna 230 milljarða króna?
Björn Leví Gunnarsson skrifar

Strandveiðar eru ekki sóun
Örn Pálsson skrifar

„Ísland mun taka þátt í þvingunaraðgerðum gegn Ísrael náist samstaða fleiri ríkja“
Einar Ólafsson skrifar

SFS skuldar
Sigurjón Þórðarson skrifar

Hvar er hjálpin sem okkur var lofað?
Dagmar Valsdóttir skrifar

Áform um fleiri strandveiðidaga: Áhættusöm ákvörðun
Svanur Guðmundsson skrifar

Í nafni „sanngirni“ brenndi ríkisstjórn 230 milljörðum – lífeyrir landsmanna fór á bálið
Elliði Vignisson skrifar