Íslenska liðið vann riðil sinn í undankeppni EM í október þar sem mótherjarnir voru Grikkland og Sviss auk heimamanna í Ísrael. Sigur í milliriðli tryggir liðinu sæti í úrslitakeppni EM U17 liða sem fram fer í Slóveníu í maí.
Gunnar Guðmundsson, þjálfari liðsins, tilkynnti 18 manna hóp sinn í síðustu viku. Þegar fæðingarmánuðir drengjanna eru skoðaðir kemur ýmislegt áhugavert í ljós. Átta drengjanna eru fæddir í janúar eða febrúar og enginn þeirra í nóvember eða desember. Þá eiga fimmtán drengjanna eða 83 prósent þeirra afmæli á fyrri hluta ársins.
Einn lykilmann vantar í íslenska liðið. Hafnfirðingurinn Þórður Jón Jóhannesson, sem er á mála hjá AGF í Danmörku líkt og tveir aðrir leikmenn liðsins, er frá vegna meiðsla. Þórður Jón er fæddur í janúar.
Svipað hjá stelpunumU17 ára landslið kvenna náði frábærum árangri á síðasta ári. Liðið varð Norðurlandameistari í júlí í Finnlandi og spilaði síðar í mánuðinum í úrslitakeppni Evrópumótsins í Þýskalandi eftir að hafa svo gott sem rúllað upp undan- og milliriðlum sínum. Liðið hafnaði að lokum í fjórða sæti eftir töp gegn Spánverjum og Þýskalandi.
Ef fæðingarmánuðir stúlknanna sem urðu Norðurlandameistarar og höfnuðu í fjórða sæti á EM eru skoðaðir kemur í ljós að svipað er uppi á teningnum og hjá drengjunum. Átta stúlknanna eru fæddar í janúar, febrúar eða mars en engin þeirra í október, nóvember eða desember. Alls eiga tólf stelpur eða 67 prósent þeirra afmæli á fyrri hluta ársins.
Þeir "betri“ verða betri og þeir "lakari“ lakari

Samkvæmt Gladwell og þeim rannsóknum sem hann vitnar í vindur þetta upp á sig svipað og hvernig þeir ríku verða ríkari og þeir fátæku fátækari. Í stað þess að yngri krakkarnir nái þeim eldri verður bilið alltaf breiðara. „Efnilegri" krakkarnir keppa stöðugt gegn sterkum andstæðingum, eru valdir í unglingalandslið og bæta sig hraðar en yngri krakkarnir. Fæðingardagur þeirra hefur áhrif á möguleika þeirra til að ná langt í íþróttinni.
Íslenskar rannsóknir staðfesta fæðingardagsáhrif

Í BA-ritgerð Hrannars Leifssonar við Háskóla Íslands frá síðasta ári kemur fram að þeir knattspyrnuiðkendur sem fæddir eru fyrstu mánuði ársins eru mun líklegri til þess að skila sér upp í 2. flokk félaganna en þeir sem fæddir eru seint á árinu. Eftir því sem iðkendur verða eldri eru færri í hverjum flokki sem fæddir eru á síðasta ársfjórðungi (okt-des). Úr úrtaki Hrannars voru aðeins 14 prósent drengja og 12 prósent stúlkna í 2. flokki fædd á síðasta ársfjórðungi.
Því eru fæðingardagsáhrifin ekki aðeins umhugsunarverð þegar kemur að möguleikum barna og unglinga að ná langt í sinni íþróttagrein. Einnig er áhyggjuefni ef iðkendur fæddir seint á árinu hrökklast fyrr úr íþróttum. Forvarnagildi íþrótta ætti að vera flestum ljós og varla þarf að hafa mörg orð um þau í samantekt þessari.
Ekki öll nótt úti fyrir desemberbörninForeldrar barna fædd seint á árinu sem eru að stíga sín fyrstu skref á knattspyrnuvellinum þurfa þó ekki að örvænta. Rannsóknir Ashworth og Hendels frá árinu 2007 sýndu að atvinnumenn í Þýskalandi höfðu heilt yfir umtalsvert hærri tekjur en kollegar þeirra fæddir snemma á árinu. Aðalástæðuna telja þeir vera þá að núverandi flokkakerfi ýti undir brottfall leikmanna sem fæddir eru seint á árinu. Þeir fáu leikmenn sem halda út og komast í gegnum þetta misrétti þróa með sér hugarfar sigurvegarans og þeim eru allir vegir færir.
kolbeinntumi@365.is