Handbolti

Ágúst: Vil sjá fullt hús á leiknum

Ágúst segir að stelpurnar eigi skilið að fá góðan stuðning.
fréttablaðið/pjetur
Ágúst segir að stelpurnar eigi skilið að fá góðan stuðning. fréttablaðið/pjetur
Stelpurnar okkar mæta Sviss öðru sinni á nokkrum dögum á morgun. Leikurinn er liður í undankeppni EM og þarf íslenska liðið sárlega á sigri að halda. Stelpurnar töpuðu fyrstu tveimur leikjum sínum í riðlinum en komust á sigurbraut fyrir helgi er þær lögðu svissneska liðið ytra.

Til þess að eygja raunhæfan möguleika á að komast í lokakeppni EM þurfa þær að vinna leikinn í Vodafone-höllinni á morgun.

„Þessi leikur er afar mikilvægur og það skiptir okkur miklu máli að finna fyrir góðum stuðningi. Það hjálpar liðinu mikið," sagði Ágúst Þór Jóhannsson landsliðsþjálfari.

„Það hafa verið að mæta 700-800 manns á þessa leiki hjá okkur en nú vil ég sjá fullt hús. Ég tel að stelpurnar eigi það skilið að fólk fjölmenni og fylli húsið. Ég get alveg lofað góðri skemmtun fyrir þá sem mæta á leikinn."

Stelpunum okkar gekk illa að hrista af sér svissneska liðið í síðasta leik en hafði að lokum öruggan sigur. Þær mega því ekki gefa nein færi á sér í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×