Skoðun

Sannleikur í mallakút

Pawel Bartoszek skrifar
Ögmundur Jónasson svaraði mér í Fréttablaðinu á mánudaginn. Við lestur þeirrar greinar kom upp í hugann hið enska orð „truthiness" sem bandaríski grínspjallþáttarstjórnandinn Stephen Colbert gerði frægt fyrir nokkrum árum og þýtt hefur verið sem „sannleikni". Í lauslegri skilgreiningu er sannleikni „það sem einhver veit innra með sér að sé satt, án tillits til sönnunargagna, raka, rýningar eða staðreynda".

Í grein sinni segir Ögmundur: „Með fullri virðingu fyrir öllum þeim rannsóknum sem gerðar hafa verið á fjárhættuspilum og spilahegðun þá er það mín sannfæring að jafnvel vönduðustu rannsakendum hætti til að vanreikna útbreiðslu spilafíknarinnar. Þetta er tilfinning en ekki vissa."

Vissulega getur meirihluti vísindamanna innan sömu greinar verið á villigötum. Það er allt í lagi að draga í efa niðurstöður rannsókna eða þær forsendur sem vísindamennirnir gefa sér. En slíkar ósannaðar gagntilgátur eru ekki rök í sjálfu sér. Og ef banna á póker á netinu vegna þess að ráðherra finnur í hjarta sér að vandamálið sé mikið, mun meira en rannsóknir benda til, þá er verið að leggja til lög sem hvíla á tilfinningu en ekki vissu.

En víkjum að öðru atriði í svari ráðherrans. Innaríkisráðherra hélt því fram nýlega, í inngangsorðum rannsóknar um umfang spilafíknar, að „milljarðar króna" færu í fjárhættuspil á netinu. Á svipuðum tíma birti innanríkisráðuneytið áætlun sína um að talan væri 1,5 milljarðar svo með sambærilegri „áhættunámundun" mætti segja að 15 manns væru „tugir manna". Hitt getur þó verið að ráðherrann hafi alls ekki byggt fullyrðingu sína um „milljarðana" á þessari tölu, heldur hafi hann byggt hana á á tilfinningu, en ekki vissu.

Talan 1,5 milljarðar er kannski ekki ólíklegri en hver önnur en engu að síður er nauðsynlegt að vita hvernig hún er fengin. Það væri gott að vita hvað nákvæmlega sé verið að summa, yfir hve langt tímabil og svo framvegis. Tilraunir mínar til að komast að þessu einskorðuðust ekki við opinber greinarskrif. Ég sendi fyrirspurn um þetta í gegnum vef innanríkisráðuneytis um það leyti sem pistill minn „Þjóðin sem réð við spilafíkn sína" birtist í mars síðastliðnum. Ég ítrekaði þá fyrirspurn stuttu síðar. Þremur vikum síðar, þegar ég hafði ekki fengið svar við spurningunum, sendi ég tölvupóst á einn aðstoðarmanna innanríkisráðherra til að forvitnast um afdrif þeirra. Ég sendi einnig fyrirspurnir á aðila í ráðuneytinu sem ætla mætti að hefðu fjárhættuspil á sinni könnu. Loks reyndi ég að hafa samband við Ögmund sjálfan í gegnum vef hans.

Nú kann að vera að veffyrirspurnir mínar hafi allar mistekist og tölvupóstarnir til ráðuneytisins liggi í ruslpóstssíum starfsmanna.

Það gæti verið ein skýring þess að ég hafði, þangað til grein Ögmundar birtist á mánudaginn, engin svör við þeim fengið. Þetta er raunar frekar óvenjulegt miðað við reynslu mína af ráðuneytunum hingað til, en við skulum ekki lesa í þann bolla frekar. Þótt svar Ögmundar Jónassonar seðji talnahungraða menn seint færir það okkur samt nær einhvers konar sannleika um það hvernig talan 1,5 milljarðar hafi verið fengin. Samkvæmt svarinu er um að ræða „áætlun kortafyrirtækjanna".

Það segir eitt og sér fátt, því áfram vitum við ekki hvað er verið að summa, yfir hve langan tíma og hvernig. Ég hef nú sent innanríkisráðuneytinu formlegt erindi um aðgang að þeim skjölum frá kortafyrirtækjunum sem gáfu innanríkisráðuneytinu ástæðu til að ætla að Íslendingar eyddu 1,5 milljörðum í fjárhættuspil á netinu. Ég vonast að sjálfsögðu eftir skjótum og jákvæðum svörum. Ef ráðherra notar tölur í rökstuðningi fyrir íþyngjandi löggjöf þarf hann að gera fullnægjandi grein fyrir því hvernig þær eru fengnar. Aðrir þurfa að geta sannreynt þær. Opinber rökstuðningur kallar á opinber gögn.

Það er svo annað mál að vont er að banna fólki að eyða eigin peningum með þeim rökum að verið sé að spara gjaldeyri „þjóðarinnar" eða með skírskotun í það að fólkið kynni, þótt ólíklegt sé, að eyða um efni fram.

En ef slíkum rökum á að beita er það lágmarkskrafa að þau hvíli á raunverulegum, opinberum gögnum. En ekki á tilfinningu ráðherra.




Skoðun

Sjá meira


×