Skoðun

Allir við sama borð

Guðbjartur Hannesson skrifar
Í dag er haldið hringþing um menntamál innflytjenda. Þar koma saman fulltrúar þeirra fjölmörgu aðila sem koma að málaflokknum til að skapa samræðuvettvang, meta stöðuna og leggja drög að sameiginlegri stefnu og forgangsröðun.

Á síðasta áratug tvöfaldaðist hlutfall innflytjenda á Íslandi, fólk víðs vegar að úr heiminum sem kom ekki einungis hingað til að vinna heldur til að hefja nýtt líf með öllum þeim breytingum sem því fylgja; að flytja, ný menning, nýtt tungumál og allt ókunnugt og glíman við stjórnsýsluna oft og tíðum erfið.

Tölfræðin sýnir að innflytjendur skrá sig síður í framhaldsskóla en Íslendingar og enn færri ljúka námi. Það gefur vísbendingar um að ekki sé verið að mæta þörfum þeirra í menntakerfinu og því mikilvægt að þeir sem koma að þessum málaflokki leiti leiða til að tryggja að þessi hópur sitji við sama borð og aðrir og njóti sömu tækifæra til virkar þátttöku í samfélaginu. Þannig spornum við gegn þeirri þróun sem við sjáum víða í nágrannalöndum okkar, þar sem önnur kynslóð innflytjenda hefur farið halloka í samfélaginu og stéttaskipting hefur myndast.

Við viljum búa í samfélagi þar sem allir hafa jöfn tækifæri og komið er til móts við hvern einstakling svo hann geti verið virkur samfélagsþegn. Við tryggjum aðgengi fyrir fatlað fólk, læknisþjónustu fyrir veika og með sama hætti verðum við að styðja innflytjendur nægilega vel til að tryggja að þeir njóti sömu tækifæra til þess að vera virkir þegnar í íslensku samfélagi.

Á hringþingi um menntamál innflytjenda er ætlunin að fjalla um málefni þessa hóps á öllum skólastigum, frá leikskóla til fullorðinsfræðslu, en um samstarfsverkefni er að ræða meðal fjölda aðila sem koma að málefnum innflytjenda. Það er von mín að sú vinna sem þar fer fram verði fyrsta skref í átt að því að viðurkenna þá miklu þekkingu, reynslu og menningu sem hefur komið með innflytjendum til landsins og tryggja að allir sitji við sama borð.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×