Skoðun

Átak gert í fjármálalæsi

Katrín Jakobsdóttir skrifar
Margir hafa að undanförnu bent á nauðsyn þess að íslensk ungmenni séu markvisst frædd um fjármál og efnahagsmál og verði þannig hæfari til að takast á við eigin fjármál og skilja betur efnahagskerfi heimsins. Þetta er eðlileg krafa í kjölfar efnahagshrunsins sem varð hér á landi haustið 2008 og líklega eru flestir Íslendingar orðnir mun meðvitaðri en áður um nauðsyn þess að skilja fjármál og efnahagsmál.

Árið 2011 komu út nýjar aðalnámskrár fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla þar sem lögð er áhersla á sex grunnþætti sem ganga eins og rauður þráður í gegnum öll skólastigin. Einn þeirra þátta er læsi í víðum skilningi og innan þess hugtaks er gert ráð fyrir fjármálalæsi.

Í júní 2011 skipaði ég stýrihóp til kennslu í fjármálalæsi vegna þriggja ára tilraunaverkefnis. Hópinn skipa fulltrúar frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, Landssamtökum lífeyrissjóða, Námsgagnastofnun, Neytendasamtökunum, Samtökum fjármálafyrirtækja, Kennarasambandi Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Heimili og skóla. Árangur hópsins er þegar orðinn sýnilegur. Sex skólar hófu tilraunakennslu í fjármálalæsi í vetur, Mela- og Hagaskóli í Reykjavík, Hafralækjar- og Litlulaugaskóli í Suður-Þingeyjarsýslu og framhaldsskólarnir MA og FÁ. Haldið var námskeið fyrir kennara þessara skóla í ágúst sl. til að koma verkefninu af stað.

Við upphaf tilraunakennslunnar er gerð könnun á fjármálalæsi og síðan aftur þegar kennslu lýkur til að meta árangurinn og byggja áframhaldandi vinnu á henni. Þá er einnig gert ráð fyrir að samhliða tilraunakennslunni verði til námsefni sem gagnast mun öðrum síðar. Stýrihópurinn er að skoða námskrár og gera athugasemdir við þær og enn fremur er verið að skoða stöðu námsefnismála í fjármálalæsi.

Ljóst er að unnið er ötullega að þessu málefni og verði þeirri vinnu haldið áfram má vænta þess að fjármálalæsi verði hluti af almennri menntun íslenskra ungmenna til framtíðar.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×