Skoðun

Tímamótasamstarf

Guðbjartur Hannesson skrifar
Ísland er þekkt fyrir mikla atvinnuþátttöku þjóðarinnar sem er meiri en þekkist í nokkru öðru ríki innan OECD. Við viljum öll vinna sem getum og gerum það ef vinnu er að fá. Missi fólk vinnuna hefst leit að nýju starfi og á það þá rétt til atvinnuleysisbóta. Þær fela hins vegar ekki í sér neina lausn heldur eru aðeins tímabundið fjárhagslegt úrræði þar til úr rætist.

Framlenging bótaréttar ekki varanleg lausn fyrir atvinnuleitendur

Réttur til atvinnuleysisbóta var í kjölfar efnahagshrunsins framlengdur tímabundið úr þremur árum í fjögur. Um áramótin verður hann aftur þrjú ár. Mikið hefur verið rætt um hvernig bregðast eigi við þessum aðstæðum. Þrennt var í stöðunni; að gera ekkert – að framlengja aftur bótatímabilið – eða ráðast í aðgerðir til að skapa þeim sem í hlut eiga tækifæri til að komast aftur inn á vinnumarkaðinn.

Frá 1. september síðastliðnum til loka næsta árs er áætlað að um 3.700 atvinnuleitendur fullnýti rétt sinn innan atvinnuleysistryggingakerfisins. Þetta er mikill fjöldi og ljóst að án aðgerða myndi stór hópur fólks ekki eiga annars úrkosta en sækja um fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, endurhæfingarlífeyri eða örorkubætur. Enginn þessara kosta er góður, því fólk vill vinna ef það getur, vera virkt, fá laun fyrir framlag sitt og leggja af mörkum til samfélagsins.

Ríki, sveitarfélög og aðilar vinnumarkaðarins hafa setið á rökstólum síðustu vikur og unnið sleitulaust að sameiginlegri og skynsamlegri niðurstöðu um hvað skuli gera í málefnum fólks sem hefur fullnýtt eða fullnýtir á næstunni rétt sinn til atvinnuleysisbóta. Niðurstaða liggur fyrir í sannkölluðu tímamótasamkomulagi. Atvinnuleysistryggingasjóður leggur til um 2,7 milljarða króna sem að stærstum hluta nýtist sem mótframlag til launa í sex mánuði fyrir um 2.200 starfstengd vinnumarkaðsúrræði sem almenni vinnumarkaðurinn, sveitarfélögin og ríkið skuldbinda sig til að bjóða.

Endurhæfing

Fengin reynsla sýnir að allt að 25% atvinnuleitenda geta ekki nýtt sér starfstengd vinnumarkaðsúrræði og þurfa á endurhæfingu að halda. Því er miðað við að um 900 manns fái atvinnutengda endurhæfingu, að hluta til fólk með réttindi innan Atvinnuleysistryggingasjóðs en jafnframt um 520 einstaklingar sem hafa fullnýtt rétt sinn og verður þeim tryggður framfærslustyrkur úr Atvinnuleysistryggingasjóði.

Samvinna

Hluti þess hóps sem nýtur framfærslu sveitarfélaga er án efa vinnufær og því er í samkomulaginu lögð áhersla á að hann geti fengið ráðgjöf og annan stuðning hjá Vinnumálastofnun eða á vegum stéttarfélaga. Til þess er gott samstarf nauðsynlegt milli atvinnuráðgjafanna og félagsráðgjafa sveitarfélaganna. Markviss þjónusta við þennan hóp á að hefjast á næsta ári. Eins er áformað öflugt samstarf Vinnumálastofnunar, sveitarfélaga og starfsendurhæfingarsjóðsins VIRK fyrir fólk úr þessum hópi sem getur nýtt sér atvinnutengda starfsendurhæfingu. Loks er stefnt að fjölgun Atvinnutorga í samstarfi Vinnumálastofnunar og sveitarfélaga fyrir ungmenni á aldrinum 16–25 ára sem þurfa mikinn stuðning til að komast í vinnu eða virkni.

Þjóðarátak

Ég er nokkuð viss um að hvergi annars staðar hafi þjóð sameinast jafn eindregið í aðgerðum til að fyrirbyggja alvarlegar afleiðingar langtímaatvinnuleysis. Stjórnvöld gáfu tóninn um þessar áherslur en ein hefðu þau ekki áorkað miklu. Hér hefur sýnt sig hve miklu er hægt að koma til leiðar með samtakamættinum. Ríki og sveitarfélög, samtök launafólks og atvinnurekenda, skólakerfið, félagasamtök og almenningur hafa lagst á eitt í sannkölluðu þjóðarátaki gegn atvinnuleysi. Þess vegna hefur fjöldi fólks átt kost á áhugaverðum störfum, tekið þátt í nýsköpunarverkefnum, stundað nám eða fengist við önnur uppbyggileg og áhugaverð verkefni, fólk sem annars hefði þurft að berjast eitt gegn lamandi áhrifum atvinnuleysis, afskiptaleysis og innihaldslausra daga.

Ég treysti því að áfram verði sterk samstaða um þær aðgerðir sem hér eru kynntar. Allt sem gert er í þessum tilgangi mun gera samfélagið miklu sterkara og betra þegar upp er staðið en ella.

Efling atvinnulífs og fjölgun starfa er þó ávallt mikilvægasta verkefnið.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×