Körfubolti

Axel ekki kalt í janúar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Axel Kárason
Axel Kárason Mynd/Heimasíða BCAA
Landsliðsmaðurinn Axel Kárason hefur spilað frábærlega með Værloese BBK í dönsku úrvalsdeildinni í körfubolta á nýju ári en hann var með 15 stig og 5 fráköst í sigri á Aalborg Vikings um helgina. Axel er með 17,5 stig að meðaltali í fyrstu fjórum leikjum ársins en hann skoraði 9,5 stig að meðaltali fyrir áramót og hefur því nánast tvöfaldað meðalskor sitt frá því fyrir jól.

Axel er með 20,5 framlagsstig að meðaltali í leik í janúarmánuði en auk stiganna 17,5 hefur hann tekið 6,8 fráköst og gefið 3,0 stoðsendingar að meðaltali í leik. Værloese BBK er búið að vinna þrjá þessum fjórum leikjum ekki síst fyrir framlag íslenska framherjans.

Það sem vekur þó mesta athygli er frábær nýting okkar manns í janúar en Axel hefur nýtt 13 af 22 þriggja stiga skotum sínum í þessum fjórum janúarleikjum sem gerir 59 prósent nýtingu. Hann er líka að setja niður 3,3 þrista í þessum leikjum og hefur því ekki mátt fá opið skot fyrstu vikur nýja ársins.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×