Körfubolti

Valskonur unnu topplið Keflavíkur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristrún Sigurjónsdóttir.
Kristrún Sigurjónsdóttir. Mynd/Vilhelm
Valskonur héldu áfram sigurgöngu sinni í Dominos-deild kvenna í körfubolta í kvöld þegar þær skelltu sér til Keflavíkur og unnu 19 stiga sigur á toppliði Keflavíkur, 97-78. Þetta var aðeins annað tap Keflavíkurliðsins á deild og bikar á tímabilinu.

Þetta eru athyglisverð úrslit ekki síst vegna þess að þessi lið mætast síðan aftur í bikarúrslitaleiknum í Höllinni eftir eina og hálfa viku. Valsliðið hefur nú unnið alla leiki sína á árinu eða síðan að Jaleesa Butler kom til liðsins en einn leikjanna tapaðist síðan á kæru.

Kristrún Sigurjónsdóttir og Jaleesa Butler fóru á kostum í Keflavík í kvöld en Butler var þarna að mæta sínum gömlu félögum. Kristrún skoraði 31 stig og Butler var með 24 stig, 16 fráköst, 6 stoðsendingar og varði 7 skot. Unnur Lára Ásgeirsdóttir er líka búin að ná sér af meiðslunum og skoraði 15 stig á 19 mínútum í leiknum í kvöld.

Jessica Ann Jenkins skoraði 21 stig fyrir Keflavík, Sara Rún Hinriksdóttir skoraði 18 stig og Birna Valgarðsdóttir var með 16 stig og 11 fráköst.

Valskonur tóku völdin strax í upphafi og voru 30-18 yfir eftir fyrsta leikhlutann. Keflavík náði að minnka muninn í sex stig fyrir hálfleik, 42-48, með því að vinna annan leikhlutann 24-18 en Valskonur voru miklu sterkari í seinni hálfleiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×