Körfubolti

Persónulegt stigamet Harðar Axels dugði ekki

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hörður Axel Vilhjálmsson.
Hörður Axel Vilhjálmsson. Mynd/Vilhelm
Hörður Axel Vilhjálmsson setti nýtt persónulegt stigamet í þýsku úrvalsdeildinni í körfubolta þegar hann skoraði 21 stig í átta stiga tapi Mitteldeutscher á móti EWE Baskets Oldenburg, 67-75. Þetta var í fimmta sinn á tímabilinu þar sem íslenski bakvörðurinn er stigahæsti leikmaður Mitteldeutscher.

Hörður Axel hitti frábærlega í leiknum en alls rötuðu 9 af 12 skotum hans rétta leið þar af 3 af 4 skotum fyrir utan þriggja stiga línuna.

Hörður Axel þurfti aðeins 23 mínútur til að skora stigin sín en hann var einnig með 2 fráköst og 2 stoðsendingar og var efstur hjá Mitteldeutscher í bæði stigum og framlagi.

Hörður Axel hafði mest áður skorað 18 stig á móti Artland Dragons 8. desember 2012. Hörður Axel skoraði einnig 17 stig í sex dögum áður eða á móti Eisbären Bremerhaven 2. desember 2012.

EWE Baskets Oldenburg er eitt af bestu liðum deildarinnar (5. sæti) en annað tap Mitteldeutscher í röð þýðir að liðið er komið niður í 14. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×