Körfubolti

Rændu heimili Bosh en létu NBA-hringinn hans vera

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Chris Bosh.
Chris Bosh. Mynd/Nordic Photos/Getty
Chris Bosh, einn af stjörnuleikmönnum NBA-meistara Miami Heat, lenti í óskemmtilegri lífsreynslu í vikunni þegar hann kom heim úr afmælisveislu sinni. Á meðan veislunni stóð höfðu nefnilega bíræfnir þjófar látið greipar sópa í skartgripasafni heimilisins.

Lögreglan í Miami-borg telur að þjófarnir hafi tekið með sér skartgripi að virði 340 þúsund dollara sem gerir um 41 milljón íslenskra króna. Bosh keypti húsið fyrir 12,3 milljónir dollara árið 2010.

Það voru engin merki um innbrot á heimilinu en 29 ára afmælisveisla Bosh var vel auglýst þannig að flestir vissu að Bosh-hjónin yrðu ekki heima hjá sér á þessum tíma. Lögreglan telur líka að ræningjarnir hafi þekkt vel til í húsinu.

Þjófarnir tóku samt ekki með sér NBA-hringinn hans Chris Bosh sem hann vann með Miami Heat síðasta sumar en þjófarnir létu vera að taka með sér þá skartgripi sem auðvelt væri að rekja til Bosh.

Chris Bosh varð 29 ára gamall 24. mars síðastliðinn en gat ekki haldið upp á afmælið sitt fyrr en á miðvikudagskvöldið. Veislan var hin glæsilegasta með Marokkó-eyðumerkurþema en meðal gesta voru LeBron James og Dwyane Wade.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×