Handbolti

Jenný á þetta fyllilega skilið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðný Jenný og Stefán með verðlaunin sín í gær.
Guðný Jenný og Stefán með verðlaunin sín í gær. Mynd/Stefán
Stefán Arnarson er ánægður með frammistöðu markvarðar síns hjá Val, Guðnýju Jennýju Ásmundsdóttur, sem í gær var valin besti leikmaður seinni hluta tímabilsins í N1-deild kvenna.

Valur varð deildarmeistari og fer því inn í úrslitakeppnina sem hefst í kvöld með sterka stöðu. Alls átti Valur fjóra leikmenn í úrvalsliðinu auk þess sem að Stefán var valinn besti þjálfarinn.

„Jenný hefur verið frábær í vetur og á þetta fyllilega skilið," sagði Stefán í samtali við Vísi í gær. „Hún hætti auðvitað á sínum tíma og æfði ekkert í fjögur ár. Svo kom hún til okkar árið 2010 sem þriðji markvörður en keppnisskap hennar og hefur fleytt henni í langt. Í dag er hún besti markvörður landsins."

Florentina Stanciu, markvörður ÍBV, fékk á dögunum ríkisborgararétt og er því orðin gjaldgeng með íslenska landsliðinu. Stefán fagnar því.

„Mér finnst frábært að Floru í landsliðið, enda hjálpar það landsliðinu gríðarlega mikið að vera með tvo góða markverði. Það þurfa að vera tveir sterkir leikmenn í hverri stöðu í landsliðinu."

Valur mætir Haukum í úrslitakeppninni í kvöld en flestir reikna með nokkuð auðveldum sigri deildarmeistaranna í þeirri viðureign. Valsmenn tryggðu sér einnig bikarmeistaratitilinn í síðasta mánuði.

„Við kláruðum deildina fyrir bikarinn en eftir það datt þetta aðeins niður. Við fórum til dæmis til Vestmannaeyja og fengum skell þar."

„Í úrslitakeppninni byrja öll lið með hreint borð og það getur því allt gerst. Haukar eru með ungt lið sem hefur bætt sig mikið. Við sýndum í Vestmannaeyjum að við getum spilað illa og því höfum við ekki efni á neinu vanmati."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×