Handbolti

Ætlum að sýna hvað við getum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Brynja Magnúsdóttir.
Brynja Magnúsdóttir. Mynd/Valli
Úrslitakeppni N1-deildar kvenna hefst í kvöld en þá fara fram fyrstu leikirnir í 8-liða úrslitum.

Fyrsti leikurinn hefst klukkan 18.00 en þá mætast ÍBV og FH í Eyjum. Hinir þrír leikirnir hefjast klukkan 19.30 en fyrirfram má áætla að mesta spennan verði í viðureign Stjörnunnar og HK.

„Leikir þessara liða hafa verið spennandi í vetur og verða væntanlega áfram," sagði Brynja Magnúsdóttir, leikstjórnandi HK-inga, um rimmuna við Stjörnuna í kvöld.

HK-ingar hafa reyndar unnið alla þrjá leiki liðanna í vetur, tvo í deild og einn í bikar. Stjarnan endaði þó í fjórða sæti en HK því fimmta og eru því Garðbæingar með heimavallarrétt.

„Undirbúningur okkar hefur gengið vel og við erum allar í fínu standi. Við ætlum að sýna hvað við getum," sagði Brynja sem segir margt jákvætt hafa verið í gangi hjá liði HK.

„Við höfum verið stöðugri en á síðustu árum en við erum samt nokkuð sveiflukenndar - rétt eins og Stjarnan hefur verið í vetur. Það er því kannski erfitt að spá fyrirfram í þessa leiki - það lið sem er með sterkari sigurvilja mun örugglega hafa betur."

„Stjarnan er með gott lið. Jóna Margrét er góð skytta og Rakel Dögg er bæði öflugur leikmaður og leiðtogi í þessu liði. Svo er Hanna alltaf stórhættuleg og getur klárað leiki ein síns liðs," sagði Brynja. „Við þurfum að passa vel upp á þær sem og fleiri í liðinu."

Brynja segir að varnarleikur HK-inga hafa verið sterkasti þáttur liðsins í vetur. „Við þurfum því að ná að stoppa hraðaupphlaupin þeirra svo við getum stillt upp í vörn. Það verður mikilvægt."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×