Hagnaður bandaríska gosdrykkjarisans Coca-Cola minnkaði um 15% á fyrsta ársfjórðungi ársins. Ástæðan er kreppan í Evrópu og minnkandi sala í Bandaríkjunum.
Í frétt á vefsíðu BBC segir að hagnaður Coca-Cola hafi numið rúmlega 1,7 milljörðum dollara á ársfjórðungnum samanborið við rúmlega 2 milljarða dollara á sama tímabili í fyrra.
Jákvæðu fréttirnar í uppgjöri gosdrykkjarisans eru að salan í Suður Ameríku jókst um 4% milli ára. Í Asíu og Afríku jókst hún um 9% en þar gætir einkum áhrifa af kaupum Coca-Cola á átöppunarfyrirtækinu Aujan í Saudi Arabíu.
